AFNÁM VERÐTRYGGINGAR

SKEFJALAUSIR VEXTIR UNDIR TVEIMUR NÖFNUM

Vinur minn hefur í nokkur ár greitt af tveimur húseignum, einni á Íslandi og annarri í Danmörku. Lánið á húsinu í Danmörku lækkar jafnt og þétt og eign hans í því eykst að sama skapi. Hann er ánægður og stoltur af eign sinni þar. Höfuðstóll lánsins á húsinu á Íslandi hækkar stöðugt, afborganir verða þyngri og hann á stöðugt minna í því. Hann er ósáttur og reiður vegna þróunar mála hér. Tröllasögur? Því miður ekki. Öll gögn í málinu liggja fyrir og tala sínu máli. Afnotagjald fjármuna á Íslandi er skefjalaust. Það hjúpar sig tveimur nöfnum sem eru verðtrygging og vextir.

AÐ ÞJÓNA TVEIMUR HERRUM

Það er ótrúlegt að verkalýðshreyfingin skuli ekki í yfirstandandi kjaraviðræðum setja fram kröfu um afnám verðtryggingar lána og að kaupmáttur launa verði tryggður með reglulegum leiðréttingum launatalna til samræmis við hækkun vísitölu neysluverðs. Oft eru sömu aðilar í framvarðarsveitum verkalýðsfélaga og lífeyrissjóða. Lífeyrissjóðirnir eru stærstu fjárfestar á hinum innlenda hlutabréfamarkaði og stunda þar að auki umfangsmikla útlánastarfsemi til umbjóðenda sinna. Sömu aðilar vinna annars vegar að kjarabótum fyrir almenning og hins vegar að því að hámarka ágóðann af fjármálastarfsemi lífeyrissjóðanna, t.d. með verðtryggingu lána, sem reynast mörgum mjög erfið. Það hefur aldrei reynst gæfusamt og sannfærandi að þjóna tveimur herrum.

GLÆPUR SÍÐUSTU ALDAR

Skelfilegasta dæmið um hvernig verðtrygging hefur svipt saklaust fólk aleigunni er frá níunda áratug síðustu aldar þegar misgengi lánskjaravísitölu og launa náði hámarki. Mjög margir sem þá gátu ekki staðið undir afborgunum lána í 45-60% verðbólgu áranna 1978 - 1983 (yfir 100% um mitt ár 1983) hafa borið harm sinn í hljóði. Þeim var jafnvel ekki trúað þegar þeir reyndu að útskýra hvers vegna fjárhagsstaða þeirra varð allt í einu mjög slæm. Þá þekktist jafnvel að húsnæðislán bæru 26-28% vexti og óverðtryggðar skuldbindingar báru um tíma 52,5% vexti. Misgengi níunda áratugarins hefur stundum verið kallað glæpur aldarinnar. Stór orð! Hins vegar ber að hafa í huga að aukið innsæi hagfræðinga, öflugri hagstjórnartæki, einarður vilji stjórnmálamanna og þjóðarsátt hafa orðið til þess að allt þetta er vonandi aðeins veröld sem var.

ÉG MÆLI MEÐ...

afnámi verðtryggingar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kolbeinn Karl Kristinsson

Er ekki bara lítið mál að taka lán í erlendri mynt og sleppa þannig við verðtrygginguna? Muna bara að dreifa láninu milli nokkura gjaldmiðla til að lágmarka gengisáhættuna?

Nú er auðvitað ekki bannað að lána til langs tíma án verðtryggingar en ástæða þess að það er ekki gert eru þeir háu nafnvextir sem lánin myndu bera til að bæta lánveitendum upp áhættuna við að lána án verðtryggingar. Þú getur auðvitað tekið húsnæðislán hjá glitni án verðtryggingar á 15,2% vöxtum.

Athuganir hafa sýnt að ríki með óstöðugan gjaldmiðil eins og við og óstöðugleika í verðbólgu eru líklegri til að taka upp verðtryggingu.

Nú hef ég ekki myndað mér almennilega skoðun á þessu efni en bendi á að bæði seðlabanki Íslands og rannsókn sem gerð var á ameríska húsnæðismarkaðnum frá 1962-1999 eru ósammála þér og greinilega flestum.

Ég bölvaði lengi vel verðtryggingu án þess að hafa hugmynd um áhrif hennar, góð og slæm.

Ég vil benda lesendum sem vilja kynna sér áhrif verðtryggingarinnar á þessa bráðskemmtilegu grein Agnar Freyr Helgason Hagfræðing

http://www.vefritid.is/index.php/greinasafn/verdtryggingin-iii/

Sjálfsagt er verðtrygging mjög slæm á marga vegu og það getur vel verið að ég sé alveg bullandi mikið á mót henni en gleymum þó ekki að kanna hina hlið málsins ;)

Kolbeinn Karl Kristinsson, 12.2.2008 kl. 02:16

2 Smámynd: Kristinn Ágúst Friðfinnsson

Athyglisvert. Það eru margar hliðar á þessu máli. Ég bendi þó á að t.d. í Danmörku er, eftir því sem ég veit best, hægt að fá óverðtryggð húsnæðislan með u.þ.b. 6% vöxtum.

Kristinn Ágúst Friðfinnsson, 12.2.2008 kl. 02:38

3 Smámynd: Kolbeinn Karl Kristinsson

Já en þú verður að átta þig á því hvernig bankarnir ákvarða grunnvexti sína á óverðtryggðum lánum Í danmörku er áhætta lánveitenda við að veita lán án verðtryggingar minni. Það hefur kannski eitthvað að gera með mismunandi stöðugleika gjaldmiðlanna og stöðugleika verðbólgunnar. Við verðum að átta okkur á því að við búum við minnsta sjálfstæða gjaldmiðil í heimi þar sem margir af stærstu fjárfestum gjaldmiðilsins eru spákaupmenn sem hafa neinna hagsmuna að gæta hérlendis og hafa því enga ástæðu til að halda í gjaldmiðilinn. Hann er því mjög óstöðugur og verðbólgan einnig.

Það er ekki svo einfalt að við getum tekið lán á sömu kjörum og danir bara vegna þess að við vorum eitt sinn undir þeim komnir.

Þeir vextir sem bankarnir myndu þurfa að leggja á lánin út af aukinni áhættu eru það miklir að það má vel vera að íslenskum borgurum sé betur borgið að hafa verðtryggingu.

EN eins og ég segi þá er öllum heimilt að taka óverðtryggð lán, hvort sem það er í erlendri mynt með lágum vöxtum eða í íslenskri mynt með fáránlega háum vöxtum.

Fólk talar alltaf um að Verðtrygging leysi allt, innganga í evrópusambandið leysi allt og að upptaka evrunnar sé raunhæfur möguleiki án inngöngu í sambandið. Það er bara ekki svo einfalt. Fólk verður að skoða allar hliðar málsins.

Ef Seðlabanki Íslands telur að hömlur gegn verðtryggingu séu íbúum ekki til góða þá getur maður verið nokkuð viss um að þeir hafa eitthvað til síns máls og góð rök á bakvið sig. Maður þarf ekki að vera sammála þeim en Seðlabanki Íslands myndi ábyggilega beita sér gegn verðtryggingu íslenskra lána ef aðeins væru rök á móti verðtryggingunni.

Það sama gildir um inngöngu í Evrópusambandið, einhliða upptöku evrunnar og fleiri hluti sem fólk virðist ansi fullyrðingaglatt um.

Rannsóknir sýna að verðtrygging kemur neytendum ansi oft bara mjög vel.

Kveðja, Kolbeinn

Kolbeinn Karl Kristinsson, 12.2.2008 kl. 03:07

4 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Sæll og blessaður. Gaman að rekast á þig hér á blogginu.  Óskar Björn sonur minn er búinn að vera búsettur í Kaupmannahöfn síðan í sept. 2006 og er að hugsa um að fjárfesta þar í íbúð, líst mun betur á það heldur en hér heima. Kærastan hans byrjaði síðasta haust í arkitekta skólanum í Köben og eru þau mjög ánægð, námið hjá henni er 5 ár. 

Ásdís Sigurðardóttir, 12.2.2008 kl. 16:10

5 Smámynd: Kristinn Ágúst Friðfinnsson

Ásdís, þakka þér fyrir þessi orð. Ég les bloggið þitt oft og hef mikið gagn og gaman af.

Kolbeinn Karl, þú ert svo djúpt hugsi í þessum fræðum að mig skortir andsvör. Mér finnst þó rök þeirra hagspekinga sem eru meðmæltir verðtryggingu stangast á við sáran veruleikann. Það er eitthvað í ólagi. Danir og fleiri geta boðið lága óverðtrygða vexti til langs tíma og fólk upplifað að það sé raunverulega að eignast húsnæði sitt. Af hverju getum við það ekki?

Kristinn Ágúst Friðfinnsson, 12.2.2008 kl. 23:28

6 Smámynd: Kolbeinn Karl Kristinsson

Já það er hárrétt hjá þér að það þarf að laga þessa hluti. Það er ekkert eðlilegt við það að aðalvalkostirnir séu vondur eða verri en spurningin er hvort sjálf verðtryggingin sé í raun rót vandans.

Getur verið að hún sé í raun bara afleiðing hins raunverulega vanda sem verður þá ekki leystur einfaldlega með afnemingu verðtryggingarinnar. Raunverulegi vandinn þá væntanlega verandi óstöðugleiki?

þ.e. að í raun og veru lagi maður ekki áhættuna með því að afnema verðtrygginguna heldur geri frekar verðtrygginguna óþarfi með minnkun á áhættu. þ.e. með minnkandi efnahagssveiflum.

Ég held að vandinn verði ekki leystur með einu pennastriki með því að taka af verðtrygginguna. Ég held að það þurfi að kafa dýpra ofan í þessi mál og auka frekar stöðugleika í hagkerfinu svo áhætta bankana sé minni við veitingu lána og þar af leiðandi auðveldara að veita lægri vexti á óverðtryggðum lánum og þar af leiðandi verði verðtryggð lán ekki jafn veigamikil.

Það er ekki spurning að misgengi níunda áratugarinns er einn af glæpum aldarinnar og eitt af því sem margir í dag átta sig ekki almennilega á en ég held að vandinn verði ekki leystur með einfaldri afnemingu.

Annars er ég ekki hagfræðingur en ég held að verðtrygging sé ekki rót vandans heldur afleiðing vandans.

Við ræðum þetta í góðu tómi ;)

Kveðja, Kolbeinn

Kolbeinn Karl Kristinsson, 13.2.2008 kl. 04:01

7 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Sammála!

Ég er ein af þeim sem lenti í hremmingum þessara ára sem þú talar um. Við komum heim frá námi (mannsins míns fyrrverandi) og keyptum okkar fyrstu húseign 1980. Árið 1983 gáfumst við upp á ástandinu, seldum fasteignina (útibússtjóra!) og fluttum aftur til útlanda. Ekki keyptum við aftur húseign saman, því árið 1986 skildum við. 

Greta Björg Úlfsdóttir, 13.2.2008 kl. 06:36

8 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Er ekki bara málið, fyrst gjaldmiðillinn okkar er svona óstöðugur, að taka upp evru? Ég sé það alla vega fyrir mér sem betri kost en að taka erlend lán, hugnast það einhvern veginn ekki, þó ég sé langt í frá nokkur fjármálaspekingur.

Í sannleika sagt fer allt að hringsnúast í hausnum á mér og ég hætti að geta hugsað skýrt bara við tilhugsunina um vexti og verðtryggingar! Nei, segi svona, alla vega hlutur sem ég reyni að hugsa sem minnst um, síðan næsta tilraun mín til íbúðarkaupa fór líka í vaskinn, en af allt öðrum ástæðum, sem ég hafði þó ekki stjórn á heldur, - ástæðum sem ég ætla að sleppa að tíunda hér.

Greta Björg Úlfsdóttir, 13.2.2008 kl. 06:49

9 Smámynd: Kolbeinn Karl Kristinsson

Sæl Greta. 

Við getum ekki tekið upp Evru án þess að ganga í evrópusambandið. Evrópusambandið er á móti því að við tökum upp evruna án inngöngu og ekkert alvöru sjálfstætt ríki tekur einhliða upp evru ef það ætlar að vera tekið alvarlegt gagnvart öðrum ríkjum. Að ganga í Evrópusambandið er svo stærra mál sem ég nenni ekki að rökræða hér :)

Málið með myntkörfulánin (lán í erlendri mynt) er að þar er komin gengisáhætta eins og þú veist sem skapar ákveðna áhættu en hana má lágmarkar með því að taka lánið í fleiri en einum gjaldmiðli. lækki t.d. einn gjaldmiðill þá þarf það því ekki að hafa mikil áhrif á lánsvextina þar sem hinir gjaldmiðlar lánsins hafa haldið gildi sínu að því gefnu að samfylgnistuðull gjaldmiðlanna sé ekki jákvæður.

 Annars er ég ekki heldur neinn fjármálaspekingur :)

Kolbeinn Karl Kristinsson, 13.2.2008 kl. 19:57

10 Smámynd: Kristinn Ágúst Friðfinnsson

,,... ekki heldur neinn fjármálaspekingur" Annað virðist mér.

Kristinn Ágúst Friðfinnsson, 13.2.2008 kl. 21:47

11 identicon

Til hamingju með þessa síðu sr. Kristinn Ágúst.

Þetta er þörf umræða hjá þjóð sem fyrst eignaðist peninga í heimstyrjöldinni síðari og kunni lítið á eðli þeirra sem vonlegt var.

Að mínu viti er vandinn ekki verðtrygging heldur verðbólga. Verðtrygging er einhvers konar nauðvörn gegn þeirri fjármálaspillingu sem verðbólga er þar sem milljónir skipta um eigendur með óréttlátum hætti. Frægust dæmin voru margir jafnaldrar mínir sem byggðu hús og eignuðust þau án þess að borga þau að fullu á tímum mikillar verðbólgu. Á sama tíma brann sparifé fólks og sjóða upp í bönkum og varð að engu. Ég hef með góðri samvisku predikað gegn verðbólgu í 36 ár af stólnum. Verðtrygging skiptir litlu máli ef engin er verðbólgan.

Með bestu óskum, Úlfar Guðmundsson.

Úlfar Guðmundsson (IP-tala skráð) 13.2.2008 kl. 23:32

12 Smámynd: Kolbeinn Karl Kristinsson

Ég held að ég geti tekið undir orð Úlfari

... En nei pabbi ég er ekki neinn fjármálaspekingur þótt ég hafi gaman að velta þessum hlutum fyrir mér og koma með aðrar hliðar á málunum.

Kolbeinn Karl Kristinsson, 14.2.2008 kl. 09:21

13 Smámynd: Ragnar Geir Brynjólfsson

Heilir og sælir ágætu bloggarar. Það er gaman að koma inn á þessa síðu og ég sendi öllum sem hér hafa skrifað bestu kveðjur.

Já, verðtryggingin er umdeild lagfæring á því neyðarástandi sem óðaverðbólgan skapaði. Af tvennu illu var þó óðaverðbólgan trúlega verri, sérstaklega eins og hún var orðin rétt fyrir miðjan 9. áratuginn.  Því verður þó ekki á móti mælt að verðbólgan sem hafði verið í tveggja stafa tölum frá því um miðjan 7. áratuginn ef ég man rétt datt niður í eins stafs tölu og hún hefur verið það síðan. Verðtryggingin ásamt þjóðarsáttinni náði að stöðva víxlverkunarvítahring hækkana á launum og kostnaði sem virtust engan enda ætla að taka með tilheyrandi verkföllum og óróa á vinnumarkaði líka. En kostnaðurinn við stöðugleikann, eins og þú bendir réttilega á Kristinn, er mikill og hann er greiddur að hluta til með verðbótunum.

Varðandi erlendu lánin sem Kolbeinn skrifar um þá er gengisáhætta sem fylgir þeim en það verður líka að horfa á að líkur eru á að gengisáhættan og gengisbreytingar skili sér inn í lánskjaravísitöluna þó svo að það gerist kannski á lengri tíma. Og þegar það gerist þá hækka innlendu vísitölutryggðu lánin líka sem nemur gengissveiflunni. Þegar til lengri tíma er litið þá ættu erlendu mynkörfulánin að geta verið góður kostur að því gefnu að menn geti tekið á sig skammtímasveiflurnar sem gengisbreytingarnar valda því að til lengri tíma litið þá jafnist þær út. Ég tek fram að ég tala aðeins sem áhugamaður og áhorfandi að þessu en mig grunar að þetta sé raunin.

Það sem veldur samt nokkrum ugg núna eru nýjustu fréttir sem benda til að íslensku bankarnir gætu hugsanlega átt í nokkrum erfiðleikum við endurfjármögnun en það þýðir hugsanlega að framboð á þessu erlenda fjármagni muni minnka.

Ragnar Geir Brynjólfsson, 14.2.2008 kl. 20:50

14 Smámynd: Kristinn Ágúst Friðfinnsson

Sæll Ragnar og þakka þér fyrir skrif þín. Þú bendir á mjög athyglisverða þætti og það gerir Kolbeinn líka. Mér finnst sjónarmið þín og rök skerpa sýn á þetta mál. Það sem mér finnst standa upp úr umræðum um málið er að vandinn er annar en verðtryggingin sjálf. Það er að mínum dómi einhver feilnóta í efnahagslífi okkar, ef til vill er smæð og sveiflur markaðaarins hluti skýringarinnar. Ég vildi líka gjarnan sjá fleiri rök með og á móti krónunni og tel að taka þurfi mjög ærlega umræðu um hana. Ef ég ætti að velja á milli evru og framka veldi ég franka.

Sr. Úlfar, ég er mikið sammála þér um allt sem þú ritar og mikið hef ég oft hugsað um þá eignamyndun sem átti sér stað sem verðbólgan sá um að ekki þyrfti að greiða nema að hluta.

Kristinn Ágúst Friðfinnsson, 14.2.2008 kl. 22:21

15 Smámynd: Kolbeinn Karl Kristinsson

Alveg hárrétt það sem Ragnar segir! Menn verða alltaf að átta sig á skammtíma og langtímaáhriftum. Við sjáum það t.d. núna að bílalán eru t.d. að stórum hluta tekin í erlendri mynt.

Það er að mínu mati alveg ljóst að krónan þarf að endurskoða krónuna. Ég veit ekki betur en að hún sé minnsti sjálfstæði gjaldmiðill í heimi og eins og Björgólfur benti á þá væri skynsamlegt að skipta henni t.d. til þess að áhætta íslenskra fyrirtækja sé rekstraráhætta en ekki líka gengisáhætta.

Ég get alveg lofað því þótt ég sé ekki fjármálaspekingur að Íslenska ríkið mun ekki taka upp evru einhliða, slíkt gerir ekkert alvöru sjálfst..ætt ríki sem vill láta taka sig alvarlega.

Svissneski frankinn er að mörgu leiti mjög sniðugur gjaldmiðill þar sem hann er afskaplega stöðugur og fáir bankar eru jafn hæfir til að stjórna gjaldmiðli og Svissneski seðlabankinn... EN við verðum samt að átta okkur á því í hvaða gjaldmiðli íslensk viðskipti eru að megninu til í og þar er frankinn alls ekki veigamikill. Við eigum í mun meiri viðskiptum með t.d. dollara, evru og pund og það eru meðal annars þau rök sem forsætisráðherra hefur sett á móti svissneskum franka.

Varðandi það sem Ragnar talar um varðandi bankana er þessi beina og óbeina ríkisábyrgð sem svo oft hefur verið talað um þar sem ríkinu leyfist að hlaupa undir bagga ef upp komi svipuð staða hjá íslenskum banka og við sáum gerast hjá Northern Rock. Hefur hún áhrif á setu íslensku bankana á Íslandi?, myndi ábyrgðin færast yfir á Hollenska ríkið ef Kaupþing myndi t.d. færa sig þangað? hefur íslenska ríkið bolmagn í að hlaupa undir bagga fyrir t.d. Kaupþing?

Kolbeinn Karl Kristinsson, 15.2.2008 kl. 17:21

16 Smámynd: Kristinn Ágúst Friðfinnsson

Credo = ég trúi.

Kristinn Ágúst Friðfinnsson, 15.2.2008 kl. 22:09

17 Smámynd: Heidi Strand

Það þurfti líka að verðtryggja tekjur.

Ásdís, útlendingar má ekki kaupa fasteign í Danmörku nema að hafa verið með skráð búsetu þar í 5 ár. Það er hægt að sækja um undanþágu til ráðuneytisins. Það sama gildir um búsetuíbúð. Um kaup af sumarbústað er reglan 7 ár.

Heidi Strand, 16.2.2008 kl. 10:53

18 Smámynd: Óðinn af Eyrarbakka

Ég tek heilshugar undir þetta með þér Kristinn að vaxtaokrið hér á landi er alveg með eindæmum og komið mál til að hefja herför gegn þessu óréttlæti. Leitt er þó að ekki hafi náðst samstaða innan forustusveita verkalýðsins um að berjast gegn þessu af alefli, en sum félög voru með afnám verðtryggingar af húsnæðislánum í kröfugerð sinni, svo sem eitt  félag hér austan fjalls. En því fleiri sem leggjast á árarnar því léttari mun róðurinn verða í þessa átt og ég þakka þér svo fyrir þessa góðu grein sem vonandi verður til þess að þeir sem hér ráða ríkjum átti sig á að almenningur í landinu er búinn að fá sig fullsaddann af þeirri vaxtastefnu og okri sem viðgengst í landinu.

Óðinn af Eyrarbakka, 17.2.2008 kl. 16:52

19 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Sæll sr. Kristinn, skólabróðir!

Frábær pistill hjá þér og góðar málefnalegar umræður sem hafa skapast um hann.   kv. Sigrún. 

Sigrún Jónsdóttir, 18.2.2008 kl. 14:42

20 identicon

Sæll Kristinn minn. Þakka þér fyrir síðast. Ég hringdi í vin okkar þegar ég kom heim, og færði honum skilaboðin þín. Ég vænti þess og vona að hann hafi meldað sig. Ég óska þér góðrar helgar. Bestu kveðjur, Hrefna Birgisdóttir.

Hrefna Birgisdóttir (IP-tala skráð) 1.3.2008 kl. 09:19

21 Smámynd: Steinn Hafliðason

Sæll Kristinn,

ég varð að kvitta fyrir mig fyrst ég rakst á síðuna þína.

Bestu kveðjur

Steinn Hafliðason

Tengdasonur hjónanna í Skyggnisholti

Steinn Hafliðason, 1.3.2008 kl. 18:11

22 Smámynd: Helga Auðunsdóttir

Ég ætlaði bara kasta á þig kveðju og þakka fyrir góða blogg síðu. kær kv. Helga fyrrverandi sóknarbarn :)

Helga Auðunsdóttir, 25.3.2008 kl. 20:40

23 Smámynd: Helga Auðunsdóttir

Ég man 1979 þegar verðtrygging var set á. hún átti að bjarga öllu, jú hún hjálpaði lífeyrissjóðunum, t.d minn náði að sólunda öllu og nú er verið að krafsa í bakkan með ýmsu eins að þeir sem hafa unnið við sín sveitastörf eru að fá á milli 1500 - 2000 kr í lífeyrissjóðsgreiðslur sem er náttúrlega bara háðung. Og hvað margir urðu gjaldþrota meðan verðbólgan óð upp og fólk missti verðskyn því það voru hækkanir á hverjum degi en launin stóðu í stað. Og okkur var bent á frá ráðamönnum að herða sultar ólina og borða grjónagraut. Einhvern veginn er sú staða sem er nú minnir mig ótrúlega á þessa daga. Satt best að segja þá hlýtur hægt að taka vertrygginguna út eins og hún var sett inn með einu pennastriki. Það er allt hægt ef viljinn er fyrir hendi og við ætlum ekki að sitja uppi með fjölda gjaldþrota.

Helga Auðunsdóttir, 26.3.2008 kl. 01:58

24 Smámynd: Marta B Helgadóttir

Verðtryggingin er bara vaxtavextir, það er furðulegt að þetta skuli viðgangast að innheimta þetta af fólki. Þekkist ekki annarsstaðar en á Íslandi. Líklega eru menn fyrst núna að byrja að átta sig á því fyrir alvöru að við erum hluti af vestrænu samfélagi, við getum ekki liðið svona þröngsýna fjármálastjórnun lengur.

Marta B Helgadóttir, 19.4.2008 kl. 20:57

25 Smámynd: Sigurlaug B. Gröndal

Ég er þér hjartanlega sammála Kristinn. Það er orðið löngu tímabært að afnema verðtrygginguna á lánum. Það hefði átt að gerast um leið og hún var tekin af launum. Ég tel að þetta eigi ekki við lengur. Það þarf að skoða allan fjrámálamarkaðinn hér heima í heild sinni. Sveiflur í gengi eru ekki eðliilegar og vextir eru alltof háir miðað við nágrannalöndin. Bankarnir hafa otað lánum að hverjum sem er án nánari athugunar á greiðslugetu fólks t.d. ungs fólks sem er að taka e.t.v. alltof mikla áhættu og skuldbindingar. Þeir hafa ýtt undir neyslufylleríið hjá hinum almenna borgar. Nú er komið að skuldadögunum og engin virðist bera ábyrgðina. Það verður að taka rækilega til í þessum málum. Velkominn  Kristinn, í bloggvinahópinn minn.

Sigurlaug B. Gröndal, 30.4.2008 kl. 23:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband