Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

AFNÁM VERÐTRYGGINGAR

SKEFJALAUSIR VEXTIR UNDIR TVEIMUR NÖFNUM

Vinur minn hefur í nokkur ár greitt af tveimur húseignum, einni á Íslandi og annarri í Danmörku. Lánið á húsinu í Danmörku lækkar jafnt og þétt og eign hans í því eykst að sama skapi. Hann er ánægður og stoltur af eign sinni þar. Höfuðstóll lánsins á húsinu á Íslandi hækkar stöðugt, afborganir verða þyngri og hann á stöðugt minna í því. Hann er ósáttur og reiður vegna þróunar mála hér. Tröllasögur? Því miður ekki. Öll gögn í málinu liggja fyrir og tala sínu máli. Afnotagjald fjármuna á Íslandi er skefjalaust. Það hjúpar sig tveimur nöfnum sem eru verðtrygging og vextir.

AÐ ÞJÓNA TVEIMUR HERRUM

Það er ótrúlegt að verkalýðshreyfingin skuli ekki í yfirstandandi kjaraviðræðum setja fram kröfu um afnám verðtryggingar lána og að kaupmáttur launa verði tryggður með reglulegum leiðréttingum launatalna til samræmis við hækkun vísitölu neysluverðs. Oft eru sömu aðilar í framvarðarsveitum verkalýðsfélaga og lífeyrissjóða. Lífeyrissjóðirnir eru stærstu fjárfestar á hinum innlenda hlutabréfamarkaði og stunda þar að auki umfangsmikla útlánastarfsemi til umbjóðenda sinna. Sömu aðilar vinna annars vegar að kjarabótum fyrir almenning og hins vegar að því að hámarka ágóðann af fjármálastarfsemi lífeyrissjóðanna, t.d. með verðtryggingu lána, sem reynast mörgum mjög erfið. Það hefur aldrei reynst gæfusamt og sannfærandi að þjóna tveimur herrum.

GLÆPUR SÍÐUSTU ALDAR

Skelfilegasta dæmið um hvernig verðtrygging hefur svipt saklaust fólk aleigunni er frá níunda áratug síðustu aldar þegar misgengi lánskjaravísitölu og launa náði hámarki. Mjög margir sem þá gátu ekki staðið undir afborgunum lána í 45-60% verðbólgu áranna 1978 - 1983 (yfir 100% um mitt ár 1983) hafa borið harm sinn í hljóði. Þeim var jafnvel ekki trúað þegar þeir reyndu að útskýra hvers vegna fjárhagsstaða þeirra varð allt í einu mjög slæm. Þá þekktist jafnvel að húsnæðislán bæru 26-28% vexti og óverðtryggðar skuldbindingar báru um tíma 52,5% vexti. Misgengi níunda áratugarins hefur stundum verið kallað glæpur aldarinnar. Stór orð! Hins vegar ber að hafa í huga að aukið innsæi hagfræðinga, öflugri hagstjórnartæki, einarður vilji stjórnmálamanna og þjóðarsátt hafa orðið til þess að allt þetta er vonandi aðeins veröld sem var.

ÉG MÆLI MEÐ...

afnámi verðtryggingar.


ÓSKILYRTIR KAUPRÉTTARSAMNINGAR OG OFURLAUN

Athyglisvert var að hlusta á Vilhjálm Bjarnason viðskiptafræðing og aðjúnkt í Silfri Egils í gær er hann ræddi um óskilyrta kaupréttarsamninga, sem leiða til ofurlauna. Svo virðist sem hér á landi fái stjórnendur banka og annarra stórfyrirtækja kaupréttarsamninga án þess að gerður sé samningur um hvern árangur þeir skuli sýna til að slíkur réttur verði virkur. Ábending hans um árangurstengingu kaupréttarsamninga erlendis hlýtur að verða stjórnum stórfyrirtækja hér á landi hvati til að endurskoða þessi mál. Það er sjálfsögð krafa almennra hluthafa. Að auki þarf að hafa í huga að stjarnfræðilegur kjaramunur innan lítils samfélags getur rofið samhug og gleði, trú á að réttlæti ríki og sátt um að hér sé gott að vera til. Þrátt fyrir þetta finnst mér að góð og dýrmæt störf beri að launa mjög vel. Það er hagur okkar allra og laðar hæfileikaríka einstaklinga til að takast á við þau verkefni sem þeir eru bestir í.

ÉG MÆLI MEÐ...

að við reynum að koma málum svo fyrir að sem flestir uppskeri eins og þeir sá. Það er félagslegt réttlætismál.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband