8.3.2020 | 18:39
Auður, óhamingja og persónuleikabrestir
Þessi pistill er að mínu mati vekjandi til umræðu um áleitið og flókið málefni. Útskýringar á rótum illskunnar eru á meðal hinna elstu og torráðnustu viðfangsefna mannlegrar hugsunar. Eitt af fyrstu verkefnum í þessari umræðu hefur oftast verið að leggja mat á vægi líffræðilegra erfða, félagslegra erfða og uppeldismótunar. Reynslan hefur sýnt að þegar þessir strengir eru hafnir á loft myndast veruleg óvissa og því varlegast að fullyrða sem minnst. En umræðunni þarf að halda vakandi.
Í pistlinum er komið víða við en m.a. vikið að siðblindu og sjúklegri sjálfsupphafningu og þremur afleiðum og fylgifiskum áleitinna spurninga sem tengjast persónuleikaröskunum: a) fylgifiskum auðs, b) rótum hamingju/óhamingju og c) hugsanlegum skýringum á sjúklegri sjálfsupphafningaráráttu (narcissisma)/siðblindu. Þó ég sé sammála fjölmörgu í pistlinum er freistandi að leggja hér orð í belg.
Fylgifiskar auðs. Auður sem slíkur er aldrei vondur eða góður. Fólk sem meðhöndlar auð er hins vegar misjafnlega vel undir það búið. Mikill auður í höndum andlega fátæks fólks fer oft illa með líf þess. Oftar en ekki eru þeir hæfari en aðrir til umgengni við auð, sem hafa (1.) alist upp við og mótast til að umgangast mikinn auð og (2.) hafa um leið fengið uppeldi og mótun til varúðar og hófsemi, (3.) hafa sjálfir verið látnir hafa fyrir því að njóta veraldlegra gæða í uppvexti og (4.) hafa upplifað heima fyrir að hamingja fæst ekki keypt fyrir fé. Á hinn bóginn eru þeir óheppnir sem alið hafa með sér þá hugsun að hamingja og farsæld byggist óhjákvæmilega á peningum. Það gildir bæði um þá sem hafa alist upp við auð og hina sem ekki hafa slíka reynslu í farteskinu. Auðugt fólk hefur þó eitt fram yfir aðra. Það er fljótara að komast að því að auður skapar hvorki hamingju né farsæld. Fljótara er það vegna þess að mikill kaupmáttur gerir þeim fært að upplifa mun hraðar hin sáru vonbrigði og niðurbrot sem skapast þegar í ljós kemur að svo er alls ekki og að hlaup er endalaust þegar hlaupið er í vitlausa átt. Hina efnaminni tekur þetta ferli mun lengri tíma. Þeir hafa líka sem betur fer sjaldnast gengið jafn skelfilega fram af siðferðisvitund sinni og hinir efnameiri gera stundum.
Rætur hamingju/óhamingju. Mjög margar hamingjurannsóknir, teknar á mismunandi stöðum og tímum, hafa sannað að peningar hafa ekkert með hamingju að gera. (Sjá nánari umfjöllun hér framar.) Hin síðari ár hafa rannsakendur talið hamingjuna byggja á samvirkni nokkurra þátta, sem endurtekið hafa komið fram við samanburð rannsókna. Harvardháskóli hefur verið leiðandi í þeim rannsóknum. Þar á bæ telja fræðimenn nú að þegar öll kurl eru komin til grafar séu 1. tengsl lykilorð hamingjunnar og að næst þeim komi sú upplifun fólks 2. að geta sjálft haft nokkur áhrif á eigið líf.
Sjálfsupphafning. Um þá fullyrðingu höfundar að sjálfsupphafning sé afleiðing ástleysis get ég alls ekki verið sammála. Í fyrsta lagi er úrlausnarefnið svo flókið og langrannsakað án lokaniðurstöðu, að 1. það er einfaldlega ekki hægt að fullyrða að nú sé skýringin komin, ástleysi valdi sjúklegri sjáklfsupphafningu (narcissisma). Ransóknir sýna hins vegar að 2. ástleysi getur verið meðverkandi áhrifavaldur eða 3. komið þessum undirliggjandi persónuleikabresti af stað. Mér vitanlega liggja engar rannsóknir fyrir um að fullyrðing höfundar dugi til að skýra þennan niðurrífandi brest í mannlegu eðli. Um flestar tilgátur og kenningar á þessu sviði er deilt, t.d. um vægi félagslegra þátta, persónuleikaþætti og geðtengslakenninguna, þ.e. um áhrif fyrstu félagslegu tengsla barna við uppalendur sína.
Ég tel að stafrænar segulómmyndir af heilanum eigi áfram sem hingað til eftir að veita veigamiklar og óvæntar upplýsingar um orsakir persónuleikabresta. Niðurstöður þeirra eru nú þegar fyrirheitaþrungnar og spennandi og lofa góðu um framfarir á þessu mikilvæga sviði.
Ég þakka sr. Hildi Eir Bolladóttur fyrir að vekja athygli á þesu mikilvæga málefni.
Af hverju er sumt fólk siðblint? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.