28.1.2008 | 02:14
VIKA STÓRRA ATBURÐA Í LÍTILLI SÓKN
VIKA STÓRRA ATBURÐA Í LÍTILLI SÓKN
Það er ánægjulegt að geta hafið bloggritun hér með því að líta yfir liðna viku og sjá þar tvo stóra atburði í umhverfi sem ekki lætur mikið yfir sér. Ég er svo heppinn að vera sóknarprestur í Hraungerðisprestakalli í Flóa. Í prestakallinu eru þrjár sóknir: Hraungerðissókn, Laugardælasókn og Villingaholtssókn. Mörg býli þessara sókna eiga sér merka sögu og mannlíf svæðisins djúpar rætur. Mannfólkið í Flóanum er vandræðalaust, hógvært og háttvíst. Af þremur sóknum prestakallsins hefur ein verulega sérstöðu. Það er Laugardælasókn. Hún er mynduð af nokkrum bæjum í hinum forna Hraungerðishreppi (nú Flóahreppi) og Sandvíkurhreppi hinum forna (nú Árborg). Sóknarfæri innan landamerkja Laugardælasóknar eru mörg enda einsýnt að þéttbýlisþróun út frá Selfossi mun fyrr eða síðar verða inn á lendur hennar. Er sú þróun hafin og líklegt að á næstu áratugum fjölgi mjög í sókninni. En hverjir eru hinir stóru atburðir lítillar sóknar? Þeir tengjast báðir þessari litlu sókn með vaxtarmöguleikana.
BOBBY FISCHER HEILBRIGÐISSTOFNUN SUÐURLANDS
Í fyrsta lagi var sjálfur Bobby Fischer jarðsettur í grafreit Laugardælakirkju í síðust viku og ný bygging Heilbrigðisstofnunar Suðurlands var vígð í sömu viku. Fjölmiðlar hafa fjallað töluvert um útför Fischers, meðal annars um leynd hennar. Báðir þessir atburðir hafa komið á óvart, útför Fischers í Laugardælakirkjugarði og að Heilbrigðisstofnun Suðurlands skuli vera í Laugardælasókn, sem hefur verið að skýrast nú þegar skipulagsmál svæðisins hafa verið uppi á borði. Í báðum tilvikum er um sérlega ánægjuleg málefni að ræða. Annars vegar geta íbúar Flóahrepps og Laugardælasóknar verið stoltir af því að þessi heimsþekkti skáksnillingur skuli hafa viljað hvíla lúin bein í grafreit þessa fornfræga kirkjustaðar. Hins vegar er ánægjulegt að skapast skuli tækifæri til að verða við beiðni kirkjuyfirvalda um jöfnun þjónustuálags í prestaköllum, í þessu tilviki milli þessara misstóru prestakalla, Selfossprestakalls og Hraungerðisprestakalls. Síðast en ekki síst fögnum við stórbættri sjúkrahúsaðstöðu fyrir alla Sunnlendinga og heilsugæsluaðstöðu fyrir lágsveitirnar í Árnessýslu. Það var ánægjulegt að vera viðstaddur formlega opnun þessarar glæsilegu aðstöðu. Já, mjög stórir atburðir geta gerst í mjög litlum sóknum.
ÉG MÆLI MEÐ
að lifa einn dag í einu! Hitt er ekkert líf.
Athugasemdir
Velkominn í hóp bloggara!
Soffía Sigurðardóttir, 28.1.2008 kl. 02:28
Tilhamingju með nýja bloggið ;)
Kolbeinn
Kolbeinn Karl Kristinsson, 29.1.2008 kl. 14:03
Kæri Kiddi minn. Til hamingu með bloggsíðuna. Er búinn að setja þetta inn á favorite. Kær kveðja héðan að norðan.
Örnólfur
Örnólfur Jóhannes Ólafsson (IP-tala skráð) 29.1.2008 kl. 14:20
Sæll Kristinn.
Gaman að fá þig í hóp bloggara. Velkominn!
Jens Guð, 29.1.2008 kl. 21:45
Komst þú þá sem prestur að vígslu sjúkrahússins? Eða sem gestur?
Eða var vitlaus prestur bæði við útförina í Laugardælum og vígslu sjúkrahússins?
Glúmur Gylfason (IP-tala skráð) 29.1.2008 kl. 23:49
Ágætis utansóknarmenn og vinir mínir voru í hlutverkum presta við báðar þessar athafnir, sóknarpresturinn í Selfosssókn á sjúkrahúsinu og fulltrúi móðurkirkjunnar, sr. Jakob Rolland, í Laugardælum. Ég hef annast prestsþjónustu í kirkjum þeirra beggja, Selfosskirkju og Kristskirkju. Svona gott er Ísland í dag.
Kristinn Ágúst Friðfinnsson, 30.1.2008 kl. 00:48
Til hamingju með nýja bloggið pápi.
Magnús Már Kristinsson (IP-tala skráð) 1.2.2008 kl. 03:26
Velkominn á bloggið. Það er gaman að sjá þig hér.
Gott heillaráð hjá þér í lok færslunnar.
Það er mikil list að læra að lifa í núinu. Allt of margir eru of uppteknir af fortíðinni og kvíða framtíðinni. Ég er að reyna að lifa í núinu af því að það er það eina sem er öruggt.
Heidi Strand, 1.2.2008 kl. 07:17
Heidi Strand að reyna að gera prestinn strand með lokasetningunni?!
Glúmur Gylfason (IP-tala skráð) 1.2.2008 kl. 20:14
Sæll,
þú tókst þig vel út í viðtalinu um jarðaförina frægu. Gott að fá þig á bloggið!
Ásgeir Rúnar Helgason, 2.2.2008 kl. 17:50
Gaman að sjá þig hér Kristinn nágranni,vinur og ráðgjafi.!!
Eiríkur Rafn Magnússon, 7.2.2008 kl. 13:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.