5.6.2023 | 01:49
VERÐBÓLGA OG SAMGREIND (GERVIGREIND)
Fyrir nokkrum dögum spurði ég ChatGPT 4.0 samgreindina um hvaða tækni dyggði best til að hafa stjórn á hárri verðbólgu. Persónulega tek ég ekki undir allar tillögurnar við okkar aðstæður. Hins vegar virðist mér hér engar rökvillur á ferð og reyndar furðulega merkileg hugmyndasamantekt. Þetta var svarið:
Viðbrögð við verðbólgu falla venjulega undir verksvið seðlabanka eða peningamálayfirvalda. Hér eru nokkrar aðferðir sem almennt eru notaðar:
1. Leiðrétting peningastefnunnar: Algengasta tækið til að berjast gegn mikilli verðbólgu er að hækka vexti. Hærri vextir gera lántökur dýrari, sem getur dregið úr eyðslu og kælt hagkerfið. Minni eftirspurn getur síðan dregið úr verðbólgu. Þetta er hluti af samdráttarstefnu í peningamálum.
2. Að draga úr peningaframboði: Til að berjast gegn verðbólgu gæti seðlabanki einnig minnkað peningamagn í umferð beint, t.d. með því að selja ríkisskuldabréf. Þetta er enn önnur leið til að takmarka peninga í umferð og þar með dýrara að taka lán, sem getur dregið úr eyðslu og verðbólgu.
3. Aðlögun ríkisfjármála: Ríkisstjórnin getur tekið þátt í að hafa stjórn á verðbólgu í gegnum ríkisfjármálin. Með því að lækka ríkisútgjöld eða hækka skatta getur ríkið dregið úr heildareftirspurn í hagkerfinu sem getur hjálpað til við að lækka verðbólgu.
4. Tekjustefna: Þessi nálgun miðar að því að stjórna verðbólgu með því að stjórna launa- og verðhækkunum. Ríkisstjórnir eða seðlabankar geta ákveðið hvað launa- eða verðhækkanir mega vera miklar.
5. Gengisstefna: Í landi með mikla verðbólgu getur seðlabankinn valið að tengja gjaldmiðil sinn við stöðugri erlendan gjaldmiðil. Þetta getur hjálpað til við að koma á verðstöðugleika, en líka skapað aðra efnahagslega áhættu ef ekki er rétt stjórnað.
6. Stofnanaráðstafanir: Ríkisstjórnir geta innleitt ráðstafanir eins og afnám hafta, aukið samkeppni og stuðlað að bættri framleiðni til að vinna gegn verðbólgu.
7. Framtíðarhandleiðsla: Seðlabankar kynna oft framtíðaráætlanir sínar um vexti til að hafa áhrif á væntingar og hegðun markaðarins. Ef markaðurinn er fullviss um að seðlabankinn muni með hörku berjast gegn verðbólgu getur það hjálpað til við að halda verðbólguvæntingum í skefjum, sem síðan getur hjálpað til við að halda hinni raunverulegu verðbólgu niðri.
Þetta eru almennar aðferðir en besti kosturinn fer eftir sérstökum aðstæðum hvers hagkerfis. Einnig geta sum þessara tækja haft neikvæðar aukaverkanir, t.d. hægt á hagvexti eða aukið atvinnuleysi. Þess vegna þarf yfirvegaða dómgreind til að meta nauðsyn þess að draga úr verðbólgu á kostnað hugsanlegra neikvæðra aukaverkana.
Því næst spurði ég hvort vextir þyrftu að vera hærri en verðbólgan ef seðlabankinn reyndi að verjast hækkandi verðbólgu með sölu ríkisskuldabréfa. Þetta var svarið:
Þegar seðlabanki selur ríkisskuldabréf er hann í rauninni að fjarlægja peninga úr hagkerfinu, því þeir sem kaupa bréfin eru að skipta reiðufé sínu fyrir bréfin. Þessi lækkun peningamagns getur leitt til hærri vaxta þar sem minna fé er í umferð til að lána. Hærri vextir gera lántökur dýrari og geta því dregið úr eyðslu og fjárfestingum, sem getur hjálpað til við að hægja á verðbólgu.
Vextir á skuldabréfum sem seðlabankinn selur þurfa ekki endilega að vera hærri en verðbólgan. En í reynd gera fjárfestar almennt kröfu um raunávöxtun af fjárfestingum sínum. Það þýðir að þeir vænta þess að vextir skuldabréfsins verði hærri en verðbólgan þannig að þeir séu ekki að missa kaupmátt með því að halda skuldabréfinu.
Ef verðbólga er mikil þyrftu vextir á skuldabréfunum líklega að vera nokkuð háir til að laða að kaupendur. Ef vextirnir eru ekki nógu háir til að bjóða upp á raunávöxtun umfram verðbólgu, gætu fjárfestar hugsanlega ekki verið tilbúnir til að kaupa bréfin og tilraunir seðlabankans til að draga úr peningamagni (og þannig að berjast gegn verðbólgu) gætu skilað minni árangri en ella.
Sambandið á milli skuldabréfavaxta, verðbólgu og peningastefnu er hins vegar flókið fyrirbæri og hægt að hafa áhrif á það af mörgum öðrum þáttum. Seðlabankinn þarf að huga vel að þeim öllum við ákvörðun um stefnu sína.
8.3.2020 | 18:39
Auður, óhamingja og persónuleikabrestir
Þessi pistill er að mínu mati vekjandi til umræðu um áleitið og flókið málefni. Útskýringar á rótum illskunnar eru á meðal hinna elstu og torráðnustu viðfangsefna mannlegrar hugsunar. Eitt af fyrstu verkefnum í þessari umræðu hefur oftast verið að leggja mat á vægi líffræðilegra erfða, félagslegra erfða og uppeldismótunar. Reynslan hefur sýnt að þegar þessir strengir eru hafnir á loft myndast veruleg óvissa og því varlegast að fullyrða sem minnst. En umræðunni þarf að halda vakandi.
Í pistlinum er komið víða við en m.a. vikið að siðblindu og sjúklegri sjálfsupphafningu og þremur afleiðum og fylgifiskum áleitinna spurninga sem tengjast persónuleikaröskunum: a) fylgifiskum auðs, b) rótum hamingju/óhamingju og c) hugsanlegum skýringum á sjúklegri sjálfsupphafningaráráttu (narcissisma)/siðblindu. Þó ég sé sammála fjölmörgu í pistlinum er freistandi að leggja hér orð í belg.
Fylgifiskar auðs. Auður sem slíkur er aldrei vondur eða góður. Fólk sem meðhöndlar auð er hins vegar misjafnlega vel undir það búið. Mikill auður í höndum andlega fátæks fólks fer oft illa með líf þess. Oftar en ekki eru þeir hæfari en aðrir til umgengni við auð, sem hafa (1.) alist upp við og mótast til að umgangast mikinn auð og (2.) hafa um leið fengið uppeldi og mótun til varúðar og hófsemi, (3.) hafa sjálfir verið látnir hafa fyrir því að njóta veraldlegra gæða í uppvexti og (4.) hafa upplifað heima fyrir að hamingja fæst ekki keypt fyrir fé. Á hinn bóginn eru þeir óheppnir sem alið hafa með sér þá hugsun að hamingja og farsæld byggist óhjákvæmilega á peningum. Það gildir bæði um þá sem hafa alist upp við auð og hina sem ekki hafa slíka reynslu í farteskinu. Auðugt fólk hefur þó eitt fram yfir aðra. Það er fljótara að komast að því að auður skapar hvorki hamingju né farsæld. Fljótara er það vegna þess að mikill kaupmáttur gerir þeim fært að upplifa mun hraðar hin sáru vonbrigði og niðurbrot sem skapast þegar í ljós kemur að svo er alls ekki og að hlaup er endalaust þegar hlaupið er í vitlausa átt. Hina efnaminni tekur þetta ferli mun lengri tíma. Þeir hafa líka sem betur fer sjaldnast gengið jafn skelfilega fram af siðferðisvitund sinni og hinir efnameiri gera stundum.
Rætur hamingju/óhamingju. Mjög margar hamingjurannsóknir, teknar á mismunandi stöðum og tímum, hafa sannað að peningar hafa ekkert með hamingju að gera. (Sjá nánari umfjöllun hér framar.) Hin síðari ár hafa rannsakendur talið hamingjuna byggja á samvirkni nokkurra þátta, sem endurtekið hafa komið fram við samanburð rannsókna. Harvardháskóli hefur verið leiðandi í þeim rannsóknum. Þar á bæ telja fræðimenn nú að þegar öll kurl eru komin til grafar séu 1. tengsl lykilorð hamingjunnar og að næst þeim komi sú upplifun fólks 2. að geta sjálft haft nokkur áhrif á eigið líf.
Sjálfsupphafning. Um þá fullyrðingu höfundar að sjálfsupphafning sé afleiðing ástleysis get ég alls ekki verið sammála. Í fyrsta lagi er úrlausnarefnið svo flókið og langrannsakað án lokaniðurstöðu, að 1. það er einfaldlega ekki hægt að fullyrða að nú sé skýringin komin, ástleysi valdi sjúklegri sjáklfsupphafningu (narcissisma). Ransóknir sýna hins vegar að 2. ástleysi getur verið meðverkandi áhrifavaldur eða 3. komið þessum undirliggjandi persónuleikabresti af stað. Mér vitanlega liggja engar rannsóknir fyrir um að fullyrðing höfundar dugi til að skýra þennan niðurrífandi brest í mannlegu eðli. Um flestar tilgátur og kenningar á þessu sviði er deilt, t.d. um vægi félagslegra þátta, persónuleikaþætti og geðtengslakenninguna, þ.e. um áhrif fyrstu félagslegu tengsla barna við uppalendur sína.
Ég tel að stafrænar segulómmyndir af heilanum eigi áfram sem hingað til eftir að veita veigamiklar og óvæntar upplýsingar um orsakir persónuleikabresta. Niðurstöður þeirra eru nú þegar fyrirheitaþrungnar og spennandi og lofa góðu um framfarir á þessu mikilvæga sviði.
Ég þakka sr. Hildi Eir Bolladóttur fyrir að vekja athygli á þesu mikilvæga málefni.
Af hverju er sumt fólk siðblint? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.7.2019 | 15:05
Skilningur á samhengi sögunnar fer þverrandi. Hvers vegna?
Það er fagnaðarefni þegar fram kemur svo skörp greining á samtímavanda. Þessi sérlega vel skrifaða grein Arnars Þórs Jónssonar héraðsdómara er ekki bara góð lögfræðileg ábending, heldur einnig dýrmæt innleiðing til skilnings á hinu hugmyndasögulega samhengi íslenskrar menningar. Án skilnings á rótum hennar og framvindu verður samfélagsumræðan oft fremur hol. Ég óttast að þessi skilningur fari þverrandi á okkar óskáldlegu tíð. Ein af stóru spurningunum í mínum huga er hvers vegna svo kunni að vera.
Ákvörðunarvaldið sé ekki geymt í erlendum borgum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.3.2019 | 00:42
Eru engar nefndir í neðri deild breska þingsins, sem finna àsættanlegar niðurstöður?
Nefndir Alþingis þurfa stundum að leggja mikla vinnu í að lagfæra og breyta lagafrumvörpum og þingsályktunartillögum til að tryggur meirihluti tryggi farsæl málalok. Mér hefur alltaf fundist þetta verklag merki um lýðræðislegan þroska. Við lestur frétta um BREXIT síðustu vikur hafa þessar vangaveltur oft leitað á huga minn. Af fréttaflutningi mætti halda að breska forsætisráðherranum einum og sér sé aftur og aftur skipað að koma á ný með betri texta. Svona er þetta örugglega ekki í reynd. En mér er spurn, eru virkilega engar þingnefndir í neðri deildinni, sem vinna að ritun texta til að þóknast meirihluta þingsins? Það væri athyglisvert að lesa úttekt fréttamanns um hvernig breska þingið iðkar þetta þroskaverkefni lýðræðisins.
Gæti enn farið út án samnings | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
11.2.2008 | 19:58
AFNÁM VERÐTRYGGINGAR
SKEFJALAUSIR VEXTIR UNDIR TVEIMUR NÖFNUM
Vinur minn hefur í nokkur ár greitt af tveimur húseignum, einni á Íslandi og annarri í Danmörku. Lánið á húsinu í Danmörku lækkar jafnt og þétt og eign hans í því eykst að sama skapi. Hann er ánægður og stoltur af eign sinni þar. Höfuðstóll lánsins á húsinu á Íslandi hækkar stöðugt, afborganir verða þyngri og hann á stöðugt minna í því. Hann er ósáttur og reiður vegna þróunar mála hér. Tröllasögur? Því miður ekki. Öll gögn í málinu liggja fyrir og tala sínu máli. Afnotagjald fjármuna á Íslandi er skefjalaust. Það hjúpar sig tveimur nöfnum sem eru verðtrygging og vextir.
AÐ ÞJÓNA TVEIMUR HERRUM
Það er ótrúlegt að verkalýðshreyfingin skuli ekki í yfirstandandi kjaraviðræðum setja fram kröfu um afnám verðtryggingar lána og að kaupmáttur launa verði tryggður með reglulegum leiðréttingum launatalna til samræmis við hækkun vísitölu neysluverðs. Oft eru sömu aðilar í framvarðarsveitum verkalýðsfélaga og lífeyrissjóða. Lífeyrissjóðirnir eru stærstu fjárfestar á hinum innlenda hlutabréfamarkaði og stunda þar að auki umfangsmikla útlánastarfsemi til umbjóðenda sinna. Sömu aðilar vinna annars vegar að kjarabótum fyrir almenning og hins vegar að því að hámarka ágóðann af fjármálastarfsemi lífeyrissjóðanna, t.d. með verðtryggingu lána, sem reynast mörgum mjög erfið. Það hefur aldrei reynst gæfusamt og sannfærandi að þjóna tveimur herrum.
GLÆPUR SÍÐUSTU ALDAR
Skelfilegasta dæmið um hvernig verðtrygging hefur svipt saklaust fólk aleigunni er frá níunda áratug síðustu aldar þegar misgengi lánskjaravísitölu og launa náði hámarki. Mjög margir sem þá gátu ekki staðið undir afborgunum lána í 45-60% verðbólgu áranna 1978 - 1983 (yfir 100% um mitt ár 1983) hafa borið harm sinn í hljóði. Þeim var jafnvel ekki trúað þegar þeir reyndu að útskýra hvers vegna fjárhagsstaða þeirra varð allt í einu mjög slæm. Þá þekktist jafnvel að húsnæðislán bæru 26-28% vexti og óverðtryggðar skuldbindingar báru um tíma 52,5% vexti. Misgengi níunda áratugarins hefur stundum verið kallað glæpur aldarinnar. Stór orð! Hins vegar ber að hafa í huga að aukið innsæi hagfræðinga, öflugri hagstjórnartæki, einarður vilji stjórnmálamanna og þjóðarsátt hafa orðið til þess að allt þetta er vonandi aðeins veröld sem var.
ÉG MÆLI MEÐ...
afnámi verðtryggingar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (26)
11.2.2008 | 18:57
ANDLEG, LÍKAMLEG OG FÉLAGSLEG HEILSA
Ég er með stærri mönnum og töluvert þykkur. Ef ég hreyfði mig daglega í 60 mínútur væri ég sennilega í kjörþyngd. Á vorin, sumrin og haustin geng ég töluvert mikið. Best finnst mér að ganga úti í náttúrunni og helst ekki minna en í 200 mínútur á viku að lágmarki. Hreyfing er fyrirbyggjandi og eykur andlegt, líkamlegt og félagslegt þol og hreysti. Í göngutúrum fær heilinn tækifæri til að leita svara við úrlausnarefnum sem oft virðast torleyst og yfirvinna áhyggjur og kvíða. Síðast en ekki síst veita göngutúrar mér oft frjóar hugmyndir. Líkamlegur ávinningur göngutúra er löngu sannaður. Sá ávinningur nær bæði til almennrar líffærastarfsemi og stoðkerfis. Andleg og líkamleg vellíðan leiðir svo til bættrar félagslegrar heilsu, félagslyndis og áræðis.
ÉG MÆLI MEÐ...
göngutúrum, --- bæði stuttum og löngum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
11.2.2008 | 18:35
ÓSKILYRTIR KAUPRÉTTARSAMNINGAR OG OFURLAUN
Athyglisvert var að hlusta á Vilhjálm Bjarnason viðskiptafræðing og aðjúnkt í Silfri Egils í gær er hann ræddi um óskilyrta kaupréttarsamninga, sem leiða til ofurlauna. Svo virðist sem hér á landi fái stjórnendur banka og annarra stórfyrirtækja kaupréttarsamninga án þess að gerður sé samningur um hvern árangur þeir skuli sýna til að slíkur réttur verði virkur. Ábending hans um árangurstengingu kaupréttarsamninga erlendis hlýtur að verða stjórnum stórfyrirtækja hér á landi hvati til að endurskoða þessi mál. Það er sjálfsögð krafa almennra hluthafa. Að auki þarf að hafa í huga að stjarnfræðilegur kjaramunur innan lítils samfélags getur rofið samhug og gleði, trú á að réttlæti ríki og sátt um að hér sé gott að vera til. Þrátt fyrir þetta finnst mér að góð og dýrmæt störf beri að launa mjög vel. Það er hagur okkar allra og laðar hæfileikaríka einstaklinga til að takast á við þau verkefni sem þeir eru bestir í.
ÉG MÆLI MEÐ...
að við reynum að koma málum svo fyrir að sem flestir uppskeri eins og þeir sá. Það er félagslegt réttlætismál.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
28.1.2008 | 02:14
VIKA STÓRRA ATBURÐA Í LÍTILLI SÓKN
VIKA STÓRRA ATBURÐA Í LÍTILLI SÓKN
Það er ánægjulegt að geta hafið bloggritun hér með því að líta yfir liðna viku og sjá þar tvo stóra atburði í umhverfi sem ekki lætur mikið yfir sér. Ég er svo heppinn að vera sóknarprestur í Hraungerðisprestakalli í Flóa. Í prestakallinu eru þrjár sóknir: Hraungerðissókn, Laugardælasókn og Villingaholtssókn. Mörg býli þessara sókna eiga sér merka sögu og mannlíf svæðisins djúpar rætur. Mannfólkið í Flóanum er vandræðalaust, hógvært og háttvíst. Af þremur sóknum prestakallsins hefur ein verulega sérstöðu. Það er Laugardælasókn. Hún er mynduð af nokkrum bæjum í hinum forna Hraungerðishreppi (nú Flóahreppi) og Sandvíkurhreppi hinum forna (nú Árborg). Sóknarfæri innan landamerkja Laugardælasóknar eru mörg enda einsýnt að þéttbýlisþróun út frá Selfossi mun fyrr eða síðar verða inn á lendur hennar. Er sú þróun hafin og líklegt að á næstu áratugum fjölgi mjög í sókninni. En hverjir eru hinir stóru atburðir lítillar sóknar? Þeir tengjast báðir þessari litlu sókn með vaxtarmöguleikana.
BOBBY FISCHER HEILBRIGÐISSTOFNUN SUÐURLANDS
Í fyrsta lagi var sjálfur Bobby Fischer jarðsettur í grafreit Laugardælakirkju í síðust viku og ný bygging Heilbrigðisstofnunar Suðurlands var vígð í sömu viku. Fjölmiðlar hafa fjallað töluvert um útför Fischers, meðal annars um leynd hennar. Báðir þessir atburðir hafa komið á óvart, útför Fischers í Laugardælakirkjugarði og að Heilbrigðisstofnun Suðurlands skuli vera í Laugardælasókn, sem hefur verið að skýrast nú þegar skipulagsmál svæðisins hafa verið uppi á borði. Í báðum tilvikum er um sérlega ánægjuleg málefni að ræða. Annars vegar geta íbúar Flóahrepps og Laugardælasóknar verið stoltir af því að þessi heimsþekkti skáksnillingur skuli hafa viljað hvíla lúin bein í grafreit þessa fornfræga kirkjustaðar. Hins vegar er ánægjulegt að skapast skuli tækifæri til að verða við beiðni kirkjuyfirvalda um jöfnun þjónustuálags í prestaköllum, í þessu tilviki milli þessara misstóru prestakalla, Selfossprestakalls og Hraungerðisprestakalls. Síðast en ekki síst fögnum við stórbættri sjúkrahúsaðstöðu fyrir alla Sunnlendinga og heilsugæsluaðstöðu fyrir lágsveitirnar í Árnessýslu. Það var ánægjulegt að vera viðstaddur formlega opnun þessarar glæsilegu aðstöðu. Já, mjög stórir atburðir geta gerst í mjög litlum sóknum.
ÉG MÆLI MEÐ
að lifa einn dag í einu! Hitt er ekkert líf.
Bloggar | Breytt 13.2.2008 kl. 03:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)